Talar heildarhönnun til þín? Það eru yfir 300 tæki í boði á Íslandi og ekkert eitt rétt hjól fyrir alla. Sumir vilja opinn ramma og sitja lágt með stýrið hátt. Aðrir vilja vera með rassinn í loftinu og líta út eins og þeir séu að hjóla tour de france. Skoðaðu úrvalið á www.orflaedi.is
Viltu hafa pláss fyrir töskur, stóla eða bæði töskur og stóla? Það er hægt að fá burðarhjól með stórri körfu að framan, en hinsvegar er hægt að festa einn barnastól við flest hjól. Burðarhjól eru þyngri, erfiðara að bera upp stiga.
Tæknilegu atriðin skipta máli. Bosch þykir framleiða gott sett af mótor, skjá og rafhlöðu. Bafang, Shimano og Yamaha mótorar eru þó ekki endilega síðri. Það er auðvelt að missa sig í snobbi. Um að gera að fá að prófa hjólin. Þú finnur strax hvernig aðstoðin í mótornum er og hvort þú tengir við hjólið. Bretti og ljós að framan og aftan sem keyra á rafhlöðunni eru eiginleikar sem þú getur spurt út í. Sömuleiðis standari, dempun og gæði á bremsum. Margir halda því fram að miðjumótor sem pedalar tengjast beint sé betri kostur en mótor í aftari gjörðinni. Hér er einfaldlega ráðlagt að fá að prófa hjólið til að finna aðstoðina.
Hvernig muntu hlaða hjólið? Það getur verið kostur að geta tekið rafhlöðuna af hjólinu til að hlaða inni ef hjólið er úti. Það er hinsvegar alltaf best að geyma hjólið inni og þá er gott að hjólið sé ekki of þungt nema þú hafir aðgang að skúr.
Það er lumskur kostur að geta brotið hjólið saman til að skutla því í viðgerð og viðhald, eða til að mæla þér mót við bílandi maka og láta pikka þig upp. Meiri sveigjanleiki.
Verslaðu við aðila sem verða ennþá í rekstri eftir 2 ár. Þú munt setja fleiri kílómetra á hjólið en þú heldur. Viðhald er eðlilegur hluti af því að eiga hjól. Verður hægt að fá nagladekk og aukahluti á góðu verði og færðu aðstoð við að flikka upp á hjólið? Verslaðu við aðila sem veita góða þjónustu.
Verð segir sig sjálft. You get what you pay for. Endursölumarkaður fyrir rafhjól er virkur. Fæstir sjá eftir því að fá sér gott hjól. Það skilar sér einfaldlega í meiri notkun og betra endursöluverði. Þú munt borga a.m.k. 150.000 kr. en flest hjól eru á milli 200-400 þús.