Ég rakst á þetta graf í skýrslu frá SSH (Samtök sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu). Hér sjáum við íbúafjölda sem hlutfall af landinu öllu, annarsvegar íbúa höfuðborgarsvæðisins og svo hinsvegar íbúa Reykjavíkur. Þetta sýnir hvernig Reykjavík stækkar í takt við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 1940 þegar sveitarfélögin sem umkringja Reykjavík taka við stækkuninni og Reykjavík helst í stað. Ef til vill hefur Reykjavík hætt að blása út af þeirri einföldu ástæðu að hún er umkringd öðrum sveitarfélögum. Síðustu 25 ár hefur 90% af allri fjölgun átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu, en greinilegt að Reykjavík stendur í stað hvað þetta hlutfall varðar.
Síðasta ár var slegið met hvað varðar upphaf framkvæmda á nýjum íbúðum í Reykjavík.
Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er að þessa sögulegu þróun er mikilvægt að hafa til hliðsjónar í þeirri vegferð sem hefur verið lagt af stað í með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Fólksfjölgun hefur verið gerð skil með útvíkkun borgarinnar fremur en uppbyggingu inn á við. Verkefni eins og borgarlína og uppbygging hjólastíga þarfnast þessa sögulega samhengis til að skilja tilgang þeirra og tímasetningu.
Afhverju núna? Er þetta ekki of dýrt? Mun einhver nota þetta?
Þetta eru spurningar sem er erfitt að svara á snarpan hátt. Svarið fæst með því að skoða samhengi byggðarþróunar og landnýtingar.
Reykjavík hefur tileinkað a.m.k. 20% af byggðu landsvæði í samgöngur og restin í íbúabyggð, skrifstofur, þjónustu og útivistarsvæði. Þessi skipting styður ákveðið samgöngumynstur og ferðavenjur þar sem um 3/4 af ferðum eru á einkabíl.
Ef þessi landnýtingarhlutföll haldast óbreytt og fólksfjölgun heldur áfram má að öðru óbreyttu búast við auknu álagi á gatnamannvirki; umferðarhnútar munu versna, álagstímar lengjast og lausum bílastæðum mun fækka.
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa vitað af þessum vanda lengi. Til að styðja frekari fólksfjölgun og forða okkur frá yfirvofandi vanda er þrennt í boði:
Þriðja leiðin varð fyrir valinu. Birtingarmynd þessarar áætlunar er borgarlínan. En það er bara burðarbiti í stærri vegferð. Um er að ræða nýja stefnu í borgarskipulagi þar sem aukið er við fjölbreytni í ferðamynstri.
Borgarlínan er blanda af tramma og strætó. Vagnarnir eru svipaðir, en keyra á stofnleiðum með hærri tíðni en hefðbundinn strætó. Hitt, sem skiptir öllu máli, er að vagnarnir aka óhindrað á sér akreinum til að tryggja tíðni og afkastagetu. Með þessu móti er hægt að nýta hvern malbikaðan fermeter fjórfalt betur. Það komast fleiri leiða sinna með einni borgarlínu en þremur samliggjandi akgreinum fyrir bíla!
Almenningssamgöngur eru hagkvæmari, þær leiða til minni kyrrsetu, minni hávaðamengunar, minni slysahættu, hraðari orkuskipta og minni svifryks – svo eitthvað sé nefnt til viðbótar við aukna flutningsgetu.
Nýlega samþykkt breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins gerir kröfu um að byggingarmagni verði í auknum mæli stýrt á svæði þar sem skammt er í borgarlínu. Þetta er gert til að renna stoðum undir rekstrargrundvöll almenningssamgangna og að bæta þjónustu við sem flesta íbúa. Þjónustustig verður að öllu jöfnu hærra á þessu svæði sem endurspeglast svo í virði fasteigna. Tvö svæði sem eru vel tengd en liggja á sitthvorum endanum í borginni eru í raun „nær“ hvor öðru en tvö illa tengd svæði sem eru landfræðilega nálæg.
Þó borgarlína tengi saman fjarlæga punkta þvert á sveitarfélögin verður áfram mikið af þjónustu og vinnustöðum í Reykjavík. Útkoman gæti orðið sú að Reykjavík tekur aftur við sem þungamiðja fólksfjölgunar nú þegar ferðavenjur breytast og hægt verður að nýta landsvæði betur. Tíminn leiðir það í ljós.