Margir klóra sér í hausnum yfir sigri Donald Trump og uppgangi svokallaðs „popúlisma“ – skilja lítið hvað heillar kjósendur þessara nýju afla, líta jafnvel niður á þá og telja til rök á borð við „upplýsingaóreiðu“ og þar með gefið í skyn að þessir kjósendur, þar á meðal ómenntað verkafólk, séu ekki að kjósa eftir bestu vitund. Þó að samfélagsmiðlar séu sannarlega fullir af óreiðu og misvísandi upplýsingum, þá er ekki hægt að útskýra þessar pólitísku breytingar án þess að horfa til þess að kjósendur séu að hafna frjálslyndri hugmyndafræði. Frjálslyndið hefur gengið of langt, orðið sjálfu sér að falli og skapað þannig rými fyrir Trump og hans líkar.
Frjálslyndið færði okkur opið efnahagsumhverfi og aukna áherslu á mannréttindi. Samhliða þessu hefur þó alltaf ríkt efnahagsleg og hugmyndafræðileg togstreita milli einstaklingshyggju og annarra strauma, eins og fullveldishugmynda, sjálfstæðisbaráttu og þjóðernishyggju. Þjóðernishyggjan tengist þó ekki endilega hvít-norrænni yfirburðahyggju eða kynþáttahyggju. Hún birtist einnig í íhaldssömum sósíalisma, þar sem alþýðan berst fyrir völdum á vettvangi landsstjórnmála, og í kapítalisma, þar sem útflutningsfyrirtæki eru talin styrkja sameiginlegan gjaldmiðil og þar með kaupmátt launafólks. Í báðum tilfellum er vísað til fullveldishugmynda, en átökin snúast um hvernig eigi að nýta fullveldið. Í vissum skilningi má segja að frjálslyndið hafi tekið við af fullveldishugmyndinni sem kjarninn í stjórnmálaskipulaginu.
Frjálslyndi hefur tamið verstu eiginleika þjóðernishyggju og búið til samstarfsgrundvöll milli vestrænna ríkja. Á móti náði frjálslyndi aldrei að dreifa úr sér með þeim hætti að öll heimsbyggðin kæmi inn í þann faðm. Hún gat af sér Bandaríkin, Evrópusambandið og hernaðarbandalag þeirra. Frjálslyndi í Evrópu snérist mikið til um að draga úr líkum á stríðsátökum með því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil og auka fólksflutninga og viðskipti milli ríkja - að með því að efla viðskiptatengsl án þess að fella niður fullveldi aðildaríkja væru lönd bundin í eilíft faðmlag og myndu læra að vinna að sameiginlegum markmiðum hvors annars í stað þess að forherðast í sérhagsmunum hverrar þjóðar. Hver kosningin og stjórnarkreppan á fætur annarri ásamt sögulegum óvinsældum þjóðarleiðtoga í Evrópu bendir til þess að límið milli þegna hverrar þjóðar sé sterkara en milli landamæra Evrópuríkjanna.
Þegar Davíð Þór oddviti Sósíalistaflokksins sagði að mannúð spyrði ekki um vegabréf vilja margir kjósendur fá frekari útskýringar. Hvað með baráttuna fyrir grunnkerfum og almannatryggingum? Spyrja t.d. sjúkratryggingar ekki einmitt um vegabréf? Sósíalismi, hvort sem er hreinræktaður Marxismi, norrænn velferðarmarkaðsbúskapur eða kínverskur útflutningssósíalismi hefur sögulega aldrei blómstrað nema innan fullvalda þjóðríkja. Núninginn milli Evrópuríkja í dag má helst rekja til þeirrar togstreitu sem verður til þegar gengið er sífellt lengra í framsali á valdi hvers ríkis til Evrópusambandsins, en þó aldrei á sviði kerfanna sem skipta almenning mestu máli; almannatrygginga og grunnþjónustu.
Þegar Samfylkingin kynnti slagorðið „Stolt þjóð“ var forysta flokksins að fikra sig fram úr falli frjálslyndis sem ríkjandi hugmyndafræði. Sumir sögðu að „woke-ið væri dautt“. Það var vitað mál að þjóðernishyggja er tabú meðal sérfræðinga og menntafólks - og mannréttindi og frjálslyndi í eilífri tísku meðal þeirra. En sá hópur hefur dvínandi áhrif á umræðuna og skoðanir almennings. Samfylkingin uppskar stórsigur í kosningum, að hluta til vegna þessara áherslubreytinga. Frjálslyndustu öflin - Vinstri græn og Píratar - duttu út af þingi. Viðreisn gæti orðið síðust til að bregðast við þessum straumhvörfum, en gæti á endanum annaðhvort misst fylgi til Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins eða haldið áfram að færa orðræðuna frá mannréttindum aftur á efnahagslega einstaklingshyggju og markaðsvæðingu grunnkerfa.
Umbreytingin á sviði stjórnmála er ekki sveifla frá hægri til vinstri eða öfugt heldur er það frekar flóttinn frá frjálslyndi sem hefur tæmt sig af umbótum fyrir almenning. Flokkur fólksins stakk t.d. vel undan Sósíalistaflokknum í þessum kosningum með því að höfða til fólks sem sér opin landamæri sem efnahagslega ógn. Samt voru flokkarnir með sambærilegar áherslur í stefnumálum að öðru leyti.